Hvern eigum við að?
Hér fyrir neðan má lesa grein eftir sjálfan mig sem birt var á Viðskiptablaðið, Hringbraut. Að auki ræddi ég við teymið í Bítinu á Bylgjunni sem má finna hér.
Á skömmum tíma hafa orðið miklar sviptingar í stjórnmálum víða um heim og Ísland er enginn undantekning. Ég tel að hluti þessara sveifla mega rekja til togstreitu alþjóðavæðingarinnar og þjóðernishyggju.
Þessi togstreita kemur meðal annars í kjölfar aukinnar notkunar samfélagsmiðla og tækninnar sem fylgt hefur. Ég trúi því að svona sveiflur og átök milli tveggja andstæðuafla sé góð og ýti undir nýsköpun og bestun samfélagsins. Ég held hinsvegar að stórkostlegt fylgishrun Sjálfstæðisflokksins megi skrifa á fleiri þætti og jafnvel á ýmislegt sem alvöru stjórnmálaafl á að geta haft stjórn á.
Ég er nefnilega einstaklings- og frjálshyggjumaður og líður eins og veður vindar hafi blásið alla stjórnmálaflokka á Íslandi í burtu frá mér. Ég og aðrir hægrimenn erum enn á sama stað en flokkurinn okkar hefur hörfað undan réttrúnaðarveðrinu. Hraðinn í samfélaginu og sveiflukennd samfélagsstemning hefur orðið til þess að stjórnmálaflokkar velja málefni sem almenningur skrollar svo í burtu jafn ört og þau koma. Miðjuflokkar hafa helst sveiflast með vinsælasta fésbókarstatus dagsins eða heitasta tweetinu. Það er gott og vel enda þeir flokkar í gegnum tíðina ekki sérlega trúir neinu nema viljanum til að komast til valda og fá að ausa sinni forræðishyggju yfir okkur hin. Vonbrigði mín eru að sá flokkur sem í gegnum tíðina hefur haft sannfæringu, Sjálfstæðisflokkurinn, skuli nú hafa yfirgefið okkur hægrafólk. Því vill ég sérstaklega gagnrýna þann flokk, flokkinn sem segist ætla að tala til fólks eins og mín. Þar innan veggja hefur lengi lifað sú mantra að Sjálfstæðisflokkurinn vill að þér gangi vel. Hann vill að þú berir ábyrgð og uppskerir. Hann vill treysta þér fyrir eign ákvörðunum og fordæmir forræðishyggju og pólitískan rétttrúnað. Hann vill lægri skatta, jöfn tækifæri og frelsi til orðs og æðis. Mig grunar að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tali enn þannig hver við annan innan síns bergmálshellis. Við hin, að minnsta kosti mörg hver, finnum fyrir þverandstæðu þessara möntru. Okkur finnst Sjálfstæðisflokkurinn hafa tapað áttum.
Nú hef ég alla tíð stutt Sjálfstæðisflokkinn. Eins og Einar Þorsteinsson, núverandi oddviti Framsóknarmanna í Reykjavík var ég virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins. Eins og Pawel Bartoszek einn af öflugri fulltrúum Viðreisnar seinustu ár var ég hægrisinnaður háskólastúdent. Eins og svo margir sem studdu flokkinn þegar fylgið mældist hærra, þá hreyfst ég af einurð og festu flokksins. Síðustu ár finnst mér þó eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi týnt sjálfum sér og þar af leiðandi kjósendum. Vera má að mörgum finnist hið sama. Að minnsta kosti er svo að sjá þegar fylgið er mælt. Þetta má einnig augljóslega lesa úr nýjustu kosningum. Alvarleg naflaskoðun er ekki þörf heldur nauðsyn núna. Hvar stendur Sjálfstæðisflokkurinn þegar hann hefur misst unga fólkið? Hvernig gat það gerst að ungir kjósendur sem stunda nám í Versló styðji ekki lengur þennan eina hægri flokk í landinu? Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn þegar Píratar eru orðnir stærri í Reykjavík? Þegar meirihluti á Seltjarnarnesi og Garðabæ rambar á barmi meirihluta? Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn þegar enginn á vegum flokksins gagnrýnir forræðishyggju seðlabankastjóra þegar kemur að frelsi ungra fasteignakaupenda til lántöku? Hvernig getur það gerst að ungt hægri sinnað fólk finni sig betur í stuðningi við óstjórntækan forræðishyggju flokk eins og Pírata eða stefnulaust rekald eins og Framsóknarflokkinn? Flokka sem eiga sér stefnumál sem eldast álíka vel og rjómi að sumarlagi á heitum ofni.
Vangeta flokksins míns er því miður víða. Eitt af því sem ber hvað hæst er það sem snýr að möguleikum ungs fólks til eignamyndunar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu 10 árum verið hluti af löggjafarvaldinu. Hann hefur samt hvergi komist nálægt því að stöðva þá fásinnu að sveitarfélög standi fyrir stöðugri hækkun lóðaverðs og fasteignaskatts. Nýjasta útspilið er að styrkja leigumarkaðinn með 2500 milljóna karmellupeningum sem auðvitað eru ekkert annað en skattarnir okkar. Nú er svo komið að ungir hægrimenn sem í gegnum tíðina hafa lagt hart að sér við að eignast sinn bíl og sitt húsnæði, þurfa upp til hópa að leigja bíl og leigja fasteign. Sér er nú hver hægrimennskan.
Undir forystu Sjálfstæðisflokksins höfum við ungir kjósendur verði sett í út í horn samfélagsins. Við höfum verið hindruð frá þátttöku í eignamyndun. Hátt lóðaverð boxar okkur út. Við hreinlega getum ekki tekið þátt í leiknum sem heitir í dag þétting byggðar en er í raun ekkert annað en þétting eignamyndunar. Í stað þess að fleiri njóti ágóðans af góðæri verður gríðarlegur munur á eignamyndun kynslóða og töluvert erfiðara að komast inn á markaðinn. Við sem ekki höfum komist inn á fasteignamarkaðinn á tímum fasteingaverðssprengjunnar erum að miklu leiti yngri – Hver ætlar að berjast fyrir okkur?
Við unga, eignarlausa, einstaklings- og frjálshyggjufólkið, hvern eigum við að? Við viljum ekki vera leiguliðar. Við viljum ekki vera upp á aðra komin. Við viljum ekki stuðning til að leigja. Við viljum leggja hart að okkur án þess að vera skattlögð í drep. Við viljum bera ábyrgð á okkur sjálf en við þurfum tækifæri til þess. Aðrir flokkar tala ekki fyrir þessu og því miður er rödd Sjálfstæðisflokksins orðin hjáróma. Algjört stefnuleysi og vangeta á skilgreiningu á sjálfi stendur Sjálfstæðisflokknum fyrir þrifum. Því kalla ég eftir naflaskoðun og baráttu fyrir okkur unga fólkið á vegum Sjálfstæðisflokksins.