Skilið okkur sömu tækifærum og þið fenguð!

 

Hér fyrir neðan má lesa grein eftir sjálfan mig sem birt var í Viðskiptablaðinu.

Það ætti að vera keppikefli allra kynslóða að skila næstu kynslóð í það minnsta jafn góðu búi og þau tóku við. Þetta hefur verið viðtekið viðhorf þegar horft er til náttúrusjónarmiða en það þarf meira til. Það þarf líka að skila komandi kynslóðum efnahagslegum tækifærum enda er verðmætasköpun undirstaða velferðar. Löskuð tækifæri eru löskuð velferð. Sá er hér heldur um penna, eða öllu heldur hamrar á lyklaborð, trúir því að aðgengi að orku sé undirstaða velferðar framtíðarinnar, jafnvel allra nánustu framtíðar.

Gríðalegur efnahagslegur ávinningur

Staðreyndin er sú að efnahagslegur ávinningur Íslands af nýtingu jarðhita í stað olíu til húshitunar árið 2020 var 109,4 milljarðar eða 4,3% af landsframleiðslu. Þrátt fyrir þetta notum við Íslendingar um milljón tonn af olíu árlega, sem kostar um 100 milljarða. Ávinningur orkuskipta, jafnvel þótt bara sé litið til efnahagslegra hagsmuna, eru því augljósir. Þessu til  viðbótar liggja fyrir fjárfestingakostir í grænni starfsemi sem skilað getur ómældri verðmætasköpun til framtíðar, að því gefnu að það fáist aðgengi að grænni orku.

Fagurgalarnir

Fagurgalar stjórnmálamanna óma söng í sínu eigin draumalandi um að áfram verði haldið í þessa átt. Áfram verði sótt á forsendum grænnar orkunýtingar. Yfirsöngvarar pólitískra draumheima fullyrða að í augnsýn sé fullur árangur í orkuskiptum. Að sótt verði fram á sviði græna hagkefisins með stuðningi við umhverfisvæna starfsemi.  Í raunheimum er staðan önnur. Þar eru öfug orkuskipti að eiga sér stað. Þar er verið að aftengja fiskimjölsverksmiðjur rafmagni og tengja þær við olíu. Þar stefnir í metár innflutnings á olíu. Þar fá ný fyrirtæki í grænum iðnaði ekki samninga um orku. Þar ríkir virkjanastopp á forsendum landverndar.

Vilja- og getuleysi

Þrátt fyrir virðingaverða framgöngu Guðlaugs Þórs sem stundum virðist einn á báti í baráttu fyrir sókn í nýja orku, er langt því frá að árangur sé viðunandi. Næst kjósum við forsöngvara fyrir kór orkuskiptafagurgala árið 2025. Raforkuspá gerir ráð fyrir að þörf fyrir raforku aukist um 105 megavött þar til við kjósum næst. Þar er varlega um garð gengið og langtum líklegra að þörfin muni vaxa enn hraðar. Fyrirséð aukning raforkuframleiðslu er hins vegar aðeins upp á 37 megavött. Við þekkjum þann orkuskort sem ríkir í dag og því miður er hann að vaxa verulega. Einhver kann að spyrja af hverju? Svarið er: Vegna vilja- og getuleysis stjórnmálafólks á Íslandi og skeytingaleysis almennings gagnvart afleiðingum þessa.

Ungt fólk er afskipt

Við unga fólkið höfum ekki farið varhluta af vanstjórn seinustu ára. Þróun á húsnæðismarkaði hefur fært þeim sem eldri eru gríðaleg auðævi og skilið okkur sem nú erum að taka fyrstu skref í fullorðinslífi eftir í vonlausri stöðu. Svar okkar kynslóðar kallar á nýja verðmætasköpun og sókn í ný verðmæti. Framganga fagurgalanna er nú á góðri leið með að hafa af okkur tækifæri til framtíðarverðmætasköpunar með virkjana- og orkuskorti framtíðar.

Af stað nú!

Við erum þó hvergi nærri því að leggja árar í bát. Okkar kynslóð er vel menntuð, vel lærð og metnaðarfull. Við þekkjum heiminn og okkur þykir hann ekki stór. Við ætlum að skapa verðmæti af því að við vitum að það er undirstaða velferðar. Við ætlum að sækja fram á nýjum forsendum. Við biðjum ekki um mikið, við biðjum þess að þið sem nú stjórnið skilið landinu okkar með a.m.k. sömu sóknarfæri og þið fenguð. Að þið standið ekki fyrir þannig orkuskorti og virkjanastoppi að það taki okkar kynslóð áratugi að sópa upp eftir ykkur vitleysuna. Af stað nú. Standið upp og sýnið komandi kynslóð þá virðingu sem ykkur var sýnd. Sýnið kjark og dug. Ávinningur orkuskipta og nýting grænnar orku til verðmætasköpunar eru augljósir. Aukið raforkuframleiðslu og skilið af ykkur sömu tækifærum og þið fenguð.

Nökkvi Dan Elliðason
Stærðfræðingur

 
Previous
Previous

Íslenskt Oppenheimer Castro-fíaskó: Skondin tengsl Íslands við Oppenheimer

Next
Next

Showing Gratitude - Fulbright